Slæmur yfirmaður getur haft mjög neikvæð áhrif á gott starfsfólk. Áhrifin geta verið að bestu starfsmennirnir fara frá fyrirtækinu og þeir sem eftir eru missa hvatann sinn og ástríðu fyrir starfi sínu. Rannsóknir benda einnig á að helsti áhrifavaldur á sköpunargleði starfsmanna er þeirra næsti yfirmaður.
Ég hef heyrt ótal margar sögur af slæmum yfirmönnum sem starfa á Íslandi. Yfirmenn sem nota ótta til að stjórna, reka starfsmenn sem þora að vera með aðra skoðun en þeir sjálfir og gera upp á milli starfsmanna vegna þess að þeim líkar betur við suma en aðra. Enn aðrir gefa starfsmönnum ekki skýra starfslýsingu, vita ekki hvaða verkefnum undirmenn þeirra eru að sinna, krefjast allt of mikils af starfsmönnum og einbeita sér að því sem illa fer í stað þess sem vel fer.
Ég velti fyrir mér hvort að þessir yfirmenn hafi ekki fengið viðeigandi þjálfun eða hvort að þjálfunin og heildar myndin hafi verið illa hönnuð.
Algeng mistök þegar námskeið eru hönnuð
Þegar námskeið eru hönnuð eru það algeng mistök að hanna þau öfugt þar sem kennsluefnið er fyrst hannað og svo er fundið út hvernig best sé að mæla árangur kennslunnar.
Sérfræðingar í kennslu mæla hins vegar með aðferð sem kallast Constructive Alignment. Með þeirri aðferð er byrjað á því að skrifa niður hvað þátttakendur eigi að kunna eftir námskeiðið, svo er fundið út hvernig sé best að mæla hvort að þátttakendur hafi lært það á námskeiðinu og að lokum er fundið út hvernig nemendur eru þjálfaðir til að ná tilsettum árangri.
Ef til vill má útskýra hvers vegna þessir yfirmenn gera þessi mistök með því að segja að þeir hafa ekki fengið nógu góða þjálfun. En það þarf að huga að fleiru en bara að hanna námskeiðin vel.
Vita má fyrirfram hvort þjálfun muni skila árangri
Rannsóknir sem komu fyrst fram í kring um 1950 benda á að fjöldi fyrirtækja eyða miklu fjármagni í þjálfun yfirmanna en sjá ekki langtíma árangur. Þrátt fyrir það er enn miklu fjármagni varið í svona þjálfun sem vita má fyrirfram að mun ekki skila tilsettum árangri.
Helstu mistökin eru þau að heildar myndin er ekki skoðuð. Fyrst þarf að gera jarðveginn góðan áður en fræin (þjálfunin) eru sett niður.
Samkvæmt grein frá Harvard Business Review þá getur til dæmis skipulag fyrirtækisins, æðstu stjórnendur, stefna og ferlar innan fyrirtækisins haft mikil áhrif á hvort að yfirmenn í fyrirtækjum nýti sér nýja þjálfun. Því þarf að skoða stóru myndina til þess að ná betri árangri.
Skapa þarf gott umhverfi fyrir yfirmenn
Það er ábyrgðarfullt starf að vera yfirmaður og þá sérstaklega núna þegar við erum að upplifa fjórðu iðnbyltinguna. Fyrirtæki þurfa til dæmis að vera með góða ferla, nýsköpunarsýn, góðan stuðning og gott umhverfi fyrir yfirmenn til þess að þeir geti sinnt sínu starfi vel. Rannsóknir benda til að þjónandi forysta sé sérstaklega vel til þess fallinn til að skapa þessar góðu aðstæður. Þegar þetta gengur upp eru starfsmenn líklegri til að vera meira skapandi og það leiðir af sér nýsköpun og áframhaldandi tilveru fyrirtækja í umhverfi sem breytist hratt.