Tveir menn fundu upp vöru sem að þeirra sögn hafði þann eiginleika að hægt var að nota hana til að komast að því hvort að fólk væri nógu hæft til að sinna mikilvægum verkefnum.
Varan var töfra klæði sem einungis gáfaðir sáu.
Keisari nokkur keypti þessi föt og gekk um í nýju fötunum sínum. Þar sem fólk vissi tilganginn þá þorði enginn að segja frá því að hann væri allsber.
Það var ekki fyrr en barn þorði að segja sannleikann að aðrir þorðu að láta í sér heyra og upp komst um svikin.
Ævintýri H. C. Andersen um nýju föt keisarans er gott dæmi um mikilvægi þess að þora að vera berskjaldaður.
Þetta er líka góð dæmisaga um hvernig flestir þora ekki að synda á móti straumnum þegar þau hafa aðra skoðun en hinir.
Þorðu ekki að segja rétt svar
Í bókinni Power of moments er talað um rannsókn á hugrekki þar sem fólk var beðið um að segja hvaða lit það sæi á skjá. Fengnir voru leikarar til að segja að rauð glæra væri appelsínugul og flestir þeir sem voru rannsakaðir sögðu sama svar og leikararnir þó svarið væri augljóslega rangt.
Í öðrum hópi kom hópurinn tvisvar sinnum saman. Einn leikarinn var beðinn um að segja rangt svar þegar allir hinir sögðu rétt svar. Seinna kom hópurinn aftur saman og þau sem voru rannsökuð þorðu frekar að segja að glæran væri rauð þó svo að allir aðrir leikarar sögðu að glæran væri appelsínugul.
Niðurstaðan var þá sú að hugrekki einnar manneskju getur gefið öðrum hugrekki.
Hugrekki og berskjöldun
Rannsakandinn Brené Brown talar um að hugrekki og berskjöldun sé það sama og að berskjöldun sé forsenda sköpunargleðinnar.
Berskjöldun er í raun óvissa, áhætta og tilfinningalegur sýnileiki. Við getum ekki verið hugrökk án þess að upplifa eitthvað af þessu þrennu.
Það er mikilvægt að nútíma fyrirtæki skapi umhverfið þar sem starfsmenn þora að segja sína skoðun þegar allir aðrir eru á öðru máli. Þannig skapast tækifæri til umræðu og sköpunargleði.
Mikilvægt að skilja fyrst
Því miður benda rannsóknir til að fólk heldur að það líti út fyrir að vera gáfaðara ef það finnur hvað er að hugmyndin, frekar en að spurja spurninga til að reyna að skilja hugmyndina betur.
Ef fyrirtæki vilja vera með menningu sem styður við sköpunargleði þá skiptir máli að stjórnendur séu fyrirmyndir og þori að vera með aðra skoðun en allir hinir, vera forvitnir um nýjar hugmyndir og finna í sameiningu hvernig hugmyndin gæti virkað í stað þess að finna hvað er að hugmyndinni.
Breytt upplifun
Feel the fear and do it anyway er algeng setning. Mér þykir hinsvegar skemmtilegra að finna fyrir óttanum og breyta svo hugsunum mínum sem tengjast tilfinningunni og breyta þannig upplifun minni og gera þetta svo.
Til dæmis ef ég vil segja eitthvað sem ég er smeik við að segja þá finn ég fyrir tilfinningunni og hugsa að ég sé svo spennt að sjá hvert þetta leiði mig. Það er nefninlega mjög svipuð tilfinning í líkamanum yfir því að vera smeikur og spenntur.
Ég hvet þig til að vera hetja í dag og þannig hjálpa öðrum að vera hetja.